Archive for Author Karen Nótt Halldórsdóttir

Fréttir í annarlok

Síðasti skóladagur fyrir jólafrí er upprunnin, við mikla ánægju allra 🙂

Þann 13. desember héldum við skólafólk dag heilagrar Lúsíu hátíðlegan, en það er hefð sem hefur verið við lýði í á þriðja áratug. Þetta er notalegt aðventukvöld þar sem öllum eyjarskeggjum er boðið að horfa á krakkana flytja atriði og njóta jólaveitinga. Í þetta sinnið, auk hins hefðbundna Lúsíulags í byrjun, sýndu nemendur kennaragrín og spiluðu á gítar.

Við græddum skólagæludýr á dögunum. Ein móðirin kom færandi hendi með hana Sölku sem hefur fengið dekurmeðferð frá fyrsta degi. Ef vel gengur gæti hún einast félaga bráðlega. Og engar áhyggjur, hún fær jólamatinn sinn – búið er að gefa út umsjón í jólafríinu!

Aðventan hefur svo gengið fyrir sig með hefðbundnum skóladögum með vaxandi jólaföndri eftir því sem nær hefur dregið jólum. Ein af hefðunum (og samfélagsleg skylda okkar) er að skreyta hinn svokallaða klukkuvegg í skólanum/félagsheimilinu þar til hann verður að jólavegg. Skreytingin er með óhefðbundnara móti í ár en hún er hugmynd nemenda að öllu leiti. Salka fékk að sjálfsögðu að vera með.

Grímseyjarskóli er umhverfisvænn skóli og í gær fórum við í Búðina með fjölnota poka sem nemendur og kennarar hafa verið að framleiða á önninni, sumir saumaðir í skólanum og aðrir keyptir og skreyttir. Þar með er komin upp pokastöð í Búðinni þar sem viðskiptavinir geta fengið lánaða fjölnota poka ef þeir gleyma sínum heima. Svo skila þeir bara næst – ætli það verði ekki bannað að taka þá með í land 😉

Ein þrælfersk hópmynd í Búðinni af nemendum, kennurum og einum gestanemanda, auk Unnar kaupmanns, við afhendingu pokanna. Á myndina vantar einn grunnskólanema og einn leikskólanema.

Karen Sigurðardóttir í Hátúni var fyrsti viðskiptavinurinn til að fá lánaðan poka. Unnur Ingólfsdóttir kaupmaður afgreiðir. Myndin er að sjálfsögðu alls ekkert sviðsett.

Seinni partinn í dag höldum við svo Litlu-jólin okkar og hver veit nema skeggjaðir óeirðaseggir komi í heimsókn og dragi okkur einn hring í kringum jólatréð 😉

 

Gleðileg jól öll sömul og takk fyrir önnina. Sjáumst úthvíld á nýju ári!

Sudbury vika í Hrísey, Fiske og framhald

Önnin líður hraðar en við gerum okkur grein fyrir og allt í einu er að líða að lokum nóvember.

Í lok október heimsóttum við vini okkar í Hríseyjarskóla og eyddum með þeim einni skólaviku, svokallaðri Sudbury viku. Nemendur fundu sér viðfangsefni, undirbjuggu áætlanir og unnu eftir þeim. Það var prjónað, spilað á gítar, eitthvað unnið í námsbókum og ýmislegt fleira áhugavert. Heimsókninni lauk með kvöldvöku unglingadeildar og svo tók við góð helgi hjá fjölskyldum á Akureyri áður en haldið var heim.

Þann 11. nóvember ár hvert höldum við Grímseyingar upp á þjóðhátíðardag okkar. Sá dagur er afmælisdagur velgjörðarmanns okkar, Daniel Willard Fiske. Hefð er fyrir því að grunnskólanemendur sjái um skemmtiatriði á hátíðinni og þetta árið var búið að taka upp og klippa myndband á Ipad. Vegna tækniegra örðugleika (og mögulega klaufaskaps skólastjórans) reyndist ekki unnt að sýna það á hátíðinni en við stefnum á að sýna það á Lúsíunni, 13. desember, í staðinn.

Annars er ótrúlega stutt í jólafrí en þangað til höldum við okkar striki að mestu, nemum, kennum og njótum.

Október og nýjar (gamlar) myndir!

Þá er kominn október og opinberlega haust. Haustönnin að verða hálfnuð og aðeins tvær vikur í að við kíkjum í heimsókn til vina okkar í Hríseyjarskóla í þriðja skiptið.

Við erum að vinna í því að setja myndir inn á síðuna, hvoru tveggja nýgamlar og eldgamlar. Inni í flipanum Gamlar myndir sem er að finna undir flipanum Skólastarf eru komnir inn nokkrir hlekkir á Google albúm og munu halda áfram að bætast við hlekkir. Stefnan er svo að búa til annan flipa á síðunni fyrir nýrri myndir.

Fyrir ykkur sem viljið stytta ykkur leið er hér hlekkur: Gamlar myndir

Njótið!

Septemberfréttir

Skólastarf Grímseyjarskóla fer vel af stað þetta haustið. Þrír nemendur eru í grunnskóladeild og tveir í leikskóladeild. Það er fámennt en góðmennt hjá okkur og andinn eftir því. September einkennist af hefðbundnu skólastarfi; vinnustundum, samfélagsfræði, listgreinum og íþróttum.

Í október er stefnan hins vegar tekin á að heimsækja vini okkar í Hríseyjarskóla þar sem við höldum sameiginlega Sudbury viku, en Sudbury er bresk skólastefna þar sem nemendur ráða námi sínu sjálfir að miklu leiti.