Saga skólans

BARNA- OG UNGLINGAFRÆÐSLA EFTIR HARALD JÓHANNSSON 
(ÚR BÓKINNI GRÍMSEY OG GRÍMSEYINGAR: ÍBÚAR OG SAGA FRÁ 2003, BLS. 320-321)

Það er óhætt að fullyrða, að í Grímsey komst mjög snemma gott lag á barna- og unglingafræðslu. Veturinn 1904 byrjar föst kennsla allra barna á skólaaldri og hefur haldist óslitið síðan. Á þeim tíma er talið að einungis helmingur barna á skólaaldri gangi í skóla á Íslandi. Ráðinn var kennari, sem hét Jón Runólfsson, en hann var bóndasonur frá Snjóholti í Eiðaþinghá. Hann kom til Íslands frá Ameríku og vann um tíma á Húsavík, en flutti á ný vestur um haf. Þennan fyrsta vetur fór kennslan fram í kvistherbergi í Neðri-Sandvík.

Árið 1905 var af miklum myndarskap byggt skólahús að Miðgörðum fyrir fé úr Fiskesjóði. Sú bygging markaði ekki aðeins tímamót varðandi kennsluna, heldur einnig allt skemmtanahald í Grímsey. Þar var einnig sæmilega rúmgott herbergi fyrir bókasafnið.

Húsið var þannig byggt, að kjallari var undir því öllu og að mestu notaður sem geymsla, og 1929, þegar talstöðin er sett upp á Miðgörðum, var mótorinn sem hlóð rafgeyma stöðvarinnar settur í kjallara skólahússins. Á hæðinni fyrir ofan voru skólastofan og bókasafnsherbergið. Úr forstofunni var stigi upp á loftið og annar niður í kjallarann. Uppi á loftinu var salur, álíka stór og kennslustofan á hæðinni fyrir neðan, og leiksvið. Þar fór mörg leiksýningin fram og gamanmál flutt. Á skólaloftinu var einnig búið í nokkur ár. Í þessu húsi var öllum börnum og unglingum kennt í 55 ár.

Óli Bjarnason útvegsbóndi á Sveinsstöðum segir frá því, þegar fjölskylda hans flutti að Básum í Grímsey. Hann kom í skólann veturinn 1914, en hafði áður verið einn vetur í farskóla í Fjörðum.

„Það datt hreinlega yfir mig að sjá skólahúsið hér“, segir hann, „stór kennslustofa og annað herbergi, þar sem bókasafnið var. Þarna voru tvíbreiðir bekkir með bökum og ýmisleg kennsluáhöld, sem ekki sáust víða, eins og t.d. hnattlíkan“.

Veturinn 1905 var séra Matthías Eggertsson [bróðursonur þjóðskáldsins séra Matthíasar Jochumssonar] kennari og kenndi til ársins 1908, en þá tók við kennslunni Hreiðar Geirdal skáld, nýkominn til eyjarinnar og kenndi hann til ársins 1911, en flutti þá alfarinn frá Grímsey.

Séra Matthías tekur þá aftur við kennslunni og er kennari til ársins 1914 en þá er Steinólfur Geirdal ráðinn kennari og kennir hann næstu 22 árin, eða til ársins 1936.

Steindór Sigurðsson rithöfundur dvaldi í Grímsey meira og minna árin 1924 til 1928 og annaðist hann unglingafræðslu að nokkru á þeim tíma.

Næstu árin kenna þeir Jakob Ó. Pétursson (1936-1937) og Gauti Hannesson (1937-1940). Árið 1940 flytur Sæmundur Dúason kennari til eyjarinnar með fjölskyldu sína og kenndi þar næstu 10 árin, eða til ársins 1950. Sæmundur skrifaði um Grímseyjarárin í bók sinni Einu sinni var og er kaflinn birtur í heild sinni hér í bókinni. Auk barnafræðslunnar var Sæmundur einnig með unglingafræðslu, vegna þess að á þessum árum fækkaði íbúum eyjarinnar um nærri helming og börn á skólaaldri voru svo fá, að tekin var upp unglingafræðsla til að nýta starfskrafta kennarans.

Kennsla fór fram í skólahúsinu við Miðgarða til ársins 1960, en þá var skólahaldið flutt í gamla verslunarhús KEA, sem stóð undir bakkanum í Sandvíkinni við enda frystihússins.

Haustið 1966 er skólinn fluttur í félagsheimilið Múla, en þá var lokið við að innrétta kennslustofurnar og bókasafnsherbergið og þar hefur verið kennt síðan.

OG HÉR ERUM VIÐ ENN

Grímseyjarskóli hefur enn aðstöðu í félagsheimilinu Múla. Þar eru tvær kennslustofur og bókasafnsherbergið, sem Haraldur Jóhannsson nefnir hér að ofan, hefur síðustu ár verið notað undir leikskólahald. Ýmislegt breyttist við sameiningu Grímseyjar við Akureyrarbæ. Til dæmis var hluti bókasafns Grímseyinga flutt inn á Akureyri en Amtsbókasafnið sér um þjónustu við eyjarskeggja sem fá bókasendingar á bókasafnið og skólabókasafnið eftir þörfum. Safnið góða frá Fiske er varðveitt í skólanum.

Fyrirkomulag kennslu er nú þannig að nemendur skiptast í yngri deild (1.-4. bekk) og eldri deild (5.-8. bekk). Nemendur í 9. og 10. sækja skóla í landi.