VINNUSTUNDIR OG ÁÆTLANIR

Grímseyjarskóli er mjög fámennur skóli, sem þýðir meðal annars að sjaldnast eiga nemendur bekkjarfélaga og námsefni er ólíkt milli nemenda.

Haustið 2016 hóf Grímseyjarskóli samstarf við Hríseyjarskóla þar sem við m.a. höfðum „Sudbury vikur“ þar sem nemendur stjórnuðu sínu námi og viðfangsefni sjálfir í viku í senn. Við tókum eftir því að áhuginn og metnaðurinn í námi var ívið meiri þegar nemendur réðu sjálfir í hverju þeir ynnu hverju sinni. Út frá þessu verkefni ákváðum við haustið 2017 að prófa að aðlaga skólastarfið örlítið að þeirri hugmyndafræði og köllum það Leiðtogar í eigin námi.

Grímseyjarskóli er því ekki með fasta bóknámstíma í stundaskrá í Eldri deild – nema á mánudögum upp á eftirfylgni. Á morgnana höfum við í stundatöflu vinnustundir þar sem í annarri stofu skólans er kennari með ensku- og íslenskukennslu og í hinni stofunni er kennari með stærðfræði- og dönskukennslu. Að auki eru uppbótartímar tvisvar í viku fyrir 7. bekk og eldri sem eru hugsaðir sem námsaðstoð (heimanámshjálp). Nemendur eru með vikuáætlun í hverju bókfagi og markmiðið er að klára áætlun fyrir vikulok. Þeir fylgjast því með sinni áætlun og velja sér stofu eftir viðfangsefni hverju sinni. Viðmiðið er að nemendur nái almennt að vinna sínar áætlanir í skólanum en að sjálfsögðu má vinna sér í haginn heima. Ef eitthvað er eftir af áætlun í vikulok er ætlast til að það sé klárað fyrir næstu viku. Utan áætlana fá nemendur almennt ekki með sér heimanám (undantekningar eru t.d. margföldunartöflur og heimalestur).

Vinnustundarfyrirkomulagið hefur gefið góða raun það sem af er og við eigum eftir að þróa það enn betur með tímanum.