Fiske

DANEL WILLARD FISKE: VELGJÖRÐAMAÐUR GRÍMSEYINGA
SAMANTEKT: SIGRÚN MAGNÚSDÓTTIR

Daniel Willard Fiske fæddist í Ellisburgh í New York ríki Bandaríkjanna þann 11. nóvember 1831. Hann var snemma heillaður af Norðurlöndunum og þá sérstaklega því hversu langa sögu þau áttu, tilheyrandi sjálfur tiltölulega ungri þjóð. Hann var mikill tungumálamaður og áður en yfir lauk talaði hann dönsku, sænsku, þýsku, frönsku, hollensku og ítölsku mjög vel og íslensku, rússnesku, persnesku og arabísku sæmilega. Hann var mjög heillaður af Íslandi og las allt sem hann komst yfir um land og þjóð.

Um miðja 19. öld, þegar Fiske var tæplega tvítugur, hélt hann félítill á vit ævintýranna.Hann fór fyrst til Kaupmannahafnar þar sem hann dvaldi í hálft ár. Hann vann fyrir sér með blaðamennsku, sendi greinar um stjórnmál og bókmenntir til heimalands síns. Meðan á dvöl hans stóð komst hann í kynni við íslenska menntamenn sem hann skrifaðist á við árum saman, þar á meðal Jón Sigurðsson (1811-79), forseta Hins íslenska bókmenntafélags og Gísla Brynjúlfsson (1827-88), einn af útgefendum skáldskapar-tímaritsins Norðurfara (1848-49) og seinna þingmaður Skagafjarðar (1859-63), sem aðstoðaði Fiske við íslenskunám.

Vorið 1851 hélt Fiske til Svíþjóðar. Hann var heillaður af sagnfræði og sögulegum stöðum. Hann var mikill göngugarpur og gekk langar vegalengdir í Suður-Svíþjóð. Hann fór á slóðir látinna sænskra mennta- og vísindamanna á borð við náttúrufræðinginn Carl von Linné, sem flokkunarkerfi plantna er kennt við, og eðlisfræðinginn Anders Celcius, sem getið hafði sér gott orð fyrir útfærslu sína á hitamælingum og hundrað stiga mælikvarðann. Hann dvaldi í Uppsölum, sem var vaxandi háskólabær, í eitt og hálft ár. Þar nam hann norræn fræði og vann fyrir sér með því að kenna ensku og senda fréttaskeyti til bandarískra blaða. Einnig hélt hann fyrirlestra um bandarískar bókmenntir á vandaðri sænsku. Þess ber að geta að íslenskar fornsögur voru prentaðar í Uppsölum fyrr en annars staðar en fyrst þeirra var Gautreks saga sem prentuð var í sænskri þýðingu árið 1664.

Dvölin í Svíþjóð veitti honum mikinn innblástur en eftir hana hélt hann til Noregs og síðan aftur til Kaupmannahafnar. Ætlunin var að fara til Íslands þaðan en hann var tíu dögum of seinn og missti því af skipinu til Íslands. Hann hélt að hausti aftur heim til Bandaríkjanna með það sem talið er hafa verið besta safn íslenskra bóka þar vestra. Íslandsferðin átti eftir að frestast um 25 ár þó Fiske ferðaðist víða á þeim tíma, til dæmis til Austurlanda nær.

Árið 1865 stofnuðu Ezra Cornell og Andrew Dickson White Cornell háskóla í Íþöku og tók hann formlega til starfa haustið 1868. Fiske var boðin staða prófessors í norrænum og norðurevrópskum tungumálum við skólann ásamt stöðu fyrsta bókavarðar skólabókasafnins. Þetta mun hafa verið í fyrsta sinn sem boðið var upp á nám í Norðurlandamálum á háskólastigi í Bandaríkjunum. Þess ber að geta að skólinn var strax í upphafi mjög framarlega í flokki æðri menntastofnana hvað varðaði aðgengi kvenna að námi auk þess sem bókasafn skólans stækkaði fljótt undir stjórn Fiske sem var framsýnn og dugmikill bókavörður.

Fiske varð ástfanginn af Jennie McGraw, dóttur auðmannsins John McGraw sem lagt hafði Cornell háskóla lið, en hann þótti henni ekki samboðinn og því fóru samskipti þeirra ekki hátt. Þau hittust fyrst í Íþöku, hún þá 29 ára og hann 38 ára, og hann heillaðist mjög af henni og samdi til hennar fjölmörg ljóð. Hún hafði verið heilsulítil frá barnsaldri og veiktist af berklum 35 ára en hún var mikil heimskona og ferðaðist víða. Faðir hennar lést árið 1877 en vinir hans pössuðu upp á að gera Jennie og Fiske erfitt um vik að vera saman til dæmis með því að hvetja hana til ferðalaga til fjarlægra landa. Hann hafði auk þess gert ráðstafanir til að tryggja að Fiske fengi ekki að njóta góðs af þeim auði sem hann lét eftir sig. Ef dóttir hans léti lífið fyrir fimmtugt án þess að hafa átt börn skyldu bróðurbörn hans erfa auðæfin. Jennie endaði á Ítalíu þaðan sem hún skrifaði vinkonu sinni dauflegt bréf í byrjun árs 1879. Hún var orðin heilsulítil og veröldin daufleg en Fiske ákvað þá að fara á hennar fund og birti þá yfir tilveru þeirra beggja.

Fiske hélt sambandi við suma þeirra Íslendinga sem hann hafði kynnst, aðallega á þeim tíma sem hann dvaldist í Kaupmannahöfn. Árið 1874, þegar 1000 ár voru liðin frá því að Ingólfur Arnarson reisti sér bæ í Reykjavík og búseta hófst á Íslandi, stóð Fiske fyrir því að Íslendingar fengju senda bókagjöf. Matthías Jochumsson (1835-1920) skrifaði honum sérstakt þakkarbréf en hann var ritstjóri og útgefandi Þjóðólfs á þeim tíma en ritið var íslenskt landsfréttablað sem gefið var út í Reykjavík frá árinu 1848 og allt til ársins 1920. Hann sendi síðan Fiske alltaf eintak af Þjóðólfi og oft fylgdi bréf með sendingunum. Fiske var einnig kosinn heiðursfélagi Hins íslenska bókmenntafélags að tillögu Jóns Sigurðssonar meðal annarra.

Fiske ferðaðist víða og meðal annars nokkrum sinnum til Evrópu á þeim árum sem hann starfaði í Bandaríkjunum en hann náði aldrei til Íslands. Árið 1878 var komið að því að láta langþráðan draum rætast og sótti hann um leyfi frá störfum við Cornell-háskóla. Vorið 1879 var hann svo tilbúinn að sigla til Evrópu í veg fyrir skip til Íslands.

Upp úr miðri 19. öld fóru gufuskip að sigla til Íslands og um svipað leyti hófust fastar áætlunarferðir á milli Danmerkur og Íslands. Þessar Íslandsferðir þóttu þó ekki við allra hæfi því hér á landi voru skilyrði frumstæð miðað við hin Norðurlöndin þar sem komnir voru vegir og ferðast var um á hestvögnum eða með lestum. Hér á landi var farið um á hestbaki eða fótgangandi. Mörgum þótti áhugavert að ferðast til Íslands, ekki síst vegna þess að hér höfðu nær engar breytingar orðið á búskaparháttum frá þjóðveldisöld. Ísland og Íslendingar voru þó ekki síst áhugaverðir fyrir þær sakir að þeir voru taldir hafa bjargað norrænum og germönskum menningararfi með söguritun og langri rithefð en fornir hættir höfðu líka að mörgu leyti varðveist vegna stöðnunar. Áhugi á þessum menningararfi Íslendinga jókst mjög á 19. öld þegar rómantískra áhrifa gætti en áður höfðu komið út nokkur vöndið rit um land og þjóð þegar upplýsingin var í öndvegi.

Fiske hélt hingað til lands í félagi við nemanda sinn úr Cornell-háskóla, Arthur Middleton Reeves (1856-91). Sá var mikill áhugamaður um íslenskar bókmenntir. Hann þýddi til að mynda Pilt og stúlku, skáldsögu eftir Jón Thoroddsen (1818/19-1868) en hann lagði drög að þeirri þýðingu í Íslandsferðinni þó hann lyki henni síðar. Einnig gaf hann út niðurstöður rannsóknar sinnar á fundi norrænna manna á Ameríku. Bókin The Finding of Wineland the Good: The History of the Icelandic Discovery of America kom út 1890 en aðeins ári síðar lést hann í lestarslysi. Reeves var enginn eftirbátur Fiske í þekkingu á íslenskri menningu og bókmenntum og var stoð hans og stytta á ferðalaginu enda yngri og hraustari maður. Hann var af efnuðu fólki kominn og borgaði hluta af ferðakostnaði Fiskes. Hann er grafinn í Ohio-fylki Bandaríkjanna og er rúnaletur á legsteini hans.

Þeir ferðafélagar héldu af stað í þessa ævintýraferð frá New York þann 21. júní 1879. Fyrsti viðkomustaður var Liverpool á Englandi þaðan sem þeir fóru til Leith í Skotlandi. Þann 9. júlí lögðu þeir svo af stað frá Skotlandi með gufuskipinu Camoens en það var í tíðum siglingum á milli Skotlands og Íslands með vörur og fólk. Meðal annars ferðaðist með skipinu fólk sem ætlaði til Vesturheims en það sigldi þá í veg fyrir skip sem flutti Íslendingana til nýs lífs í Norður-Ameríku.

Vesturferðir Íslendinga voru mestar á árunum 1851-1914 (þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst). Þær voru í fremur litlum mæli framan af en árið 1870 hófust samfelldar ferðir til Norður- Ameríku og er talið að um 15 þúsund Íslendingar hafi haldið þangað til ársins 1914. Seinni hluti 19. aldar var erfiður harðindakafli hér á landi. Eldfjallið Askja gaus árið 1875 og olli það miklum búferlaflutningum af Norðausturlandi. Kólnandi veður eftir nokkurt hlýindaskeið (1830-60) varð til þess að búskapur á heiðarbýlum varð erfiðari. Meginástæða ferðanna var þó mikil fólksfjölgun á Íslandi, sveitirnar stóðu ekki undir fjöldanum og þéttbýli tóku að myndast við sjávarsíðuna við landið sunnan- og vestanvert þar sem fiskimiðin voru best. Þetta er að sjálfsögðu efni sem ég hyggst taka fyrir síðar. https://visindavefur.hi.is/svar.php?id=56117

En aftur að ferð Fiskes og unga ferðafélaga hans, Reeves. Skipið Camoens sigldi frá Skotlandi 9. júlí 1879 eins og fyrr segir og þann 12. júlí sást til lands á Höfn í Hornafirði. Siglt var meðfram austurströndinni og hélt Fiske dagbók á ferðalaginu þar sem hann skrifaði um upplifun sína. Hann dásamaði mjög landið og fannst mikið til bjartra nátta koma. Þegar hann sá landið rísa úr hafi samdi hann ljóðið Nearing Iceland:

Þeir félagar fóru í land á Húsavík 13. júlí en skipið sigldi áfram til Reykjavíkur. Íslendingar höfðu fengið að vita af komu Íslandsvinsins Fiskes hingað til lands og voru hvattir til að sýna honum gestrisni og vinsemd enda vissu flestir af þeirri höfðinglegu bókagjöf sem Fiske hafði séð til að Íslendingar fengju fimm árum áður. Matthías Jochumsson skrifaði um ferðir Fiskes og Reeves í Þjóðólf svo Íslendingar gátu fylgst með þeim. Eftir nokkra daga hjá Þórði Guðjohnsen (1844-1926) kaupmanni á Húsavík héldu þeir til Reykjavíkur á hestum. Þeir skoðuðu Ásbyrgi og Dettifoss í Jökulsá á Fjöllum. Lítill foss, rétt sunnan við Dettifoss, sem nú heitir Selfoss vildu þeir félagar að héti Vínlandsfoss en eftir heimsókn Fiskes var hann kallaður Willardsfoss manna á meðal. Næst riðu þeir að Mývatni, skoðuðu síðan Goðafoss og héldu þaðan til Akureyrar.

Fiske var mjög hrifinn af allri sögunni og landinu sjálfu, jurtalífinu og öðru sem fyrir augu bar. Hann var framsýnn og sannfærður um að hann gæti lagt Íslendingum lið við að færa þá frá fornum til nútímalegri starfshátta, koma þeim í betra samband við umheiminn og auka velmegun þeirra. Hann hvatti þá meðal annars að bæta samgöngur og nýta vatnsaflið í landinu auk þess sem hann vildi útvega íslendingum málþráð (gamalt orð yfir síma) enda kunnugur Thomas Alva Edison (1847-1931), uppfinningamanni sem átti þátt í þeirri uppfinningu sem síminn var og er. Hann skrifaði seinna í erlend blöð um ritsímasamband við Ísland um Skotland. Ferðalaginu var gert góð skil meðal annars í Norðanfara, staðarblaði á Akureyri. Ferðalag Fiskes vakti því mikla athygli og áhuga Íslendinga sem biðu þess með eftirvæntingu að þeir ættu leið um þeirra heimaslóðir. Þeir töldu margir hverjir að Fiske væri efnamaður sem gæti styrkt Íslendinga fjárhagslega til framfara en það var á misskilningi byggt því eins og áður hefur komið fram var hann ekki fémikill maður.

Akureyri þessa tíma var „[…] varla meira en húsaþyrping sem kúrði á Eyrinni og í Fjörunni undir brekkunni“ (Kristín Bragadóttir, 2008:62) með innan við 500 íbúum. Þar var þó mikið um að vera og mikil uppbygging. Það fór vel um þá félaga, Fiske og Reeves, á stóru og þægilegu hóteli samkvæmt sendibréfi frá Fiske til móður hans. Þar nefnir hann einnig að hann hafi skoðað bókasafn staðarins en Amtsbókasafnið á Akureyri, elsta stofnun bæjarins, er tæplega 200 ára stofnun en hún var formlega stofnuð árið 1827. Til að byrja með nam árgjald safnsins daglaunum verkamanns (2 kr.) og höfðaði bókakosturinn ekki sérlega til almennings. Þannig var það þegar Fiske kom þangað en nokkrum árum síðar, árið 1894, var ákveðið að lána bækur endurgjaldslaust. Við það jókst lestur mikið og hefur þetta fyrirkomulag verið við líði æ síðar, þ.e. að íbúar bæjarins fá afhent bókasafnskort sér að kostnaðarlausu.

Eftir stutt stopp á Akureyri héldu þeir áfram för sinni. Meðal annars komu þeir við á Möðruvöllum þar sem verið var að setja á stofn Möðruvallaskóla. Hann tók til starfa árið eftir, 1880, og var Fiske velunnari skólans og sendi honum fjölmarga bókapakka. Skólinn að Möðruvöllum brann síðan árið 1902 og var þá fluttur til Akureyrar. Hann hét þá Gagnfræðaskólinn á Akureyri en varð síðar Menntaskólinn á Akureyri. Fiske hafði mikinn áhuga á menntun og þá ekki síst aðgengi kvenna að henni enda vinnustaður hans, Cornell-háskóli, framarlega á því sviði. Hann kynnti sér því þau mál sérstaklega. Einnig komu þeir við á Ytri Bægisá þar sem Jón Þorláksson (1744-1819), prestur, skáld og mikilsvirtur þýðandi, hafði búið og var grafinn (fagtímarit um þýðingar á Íslandi heitir Jón á Bægisá í höfuðið á honum). Jón þýddi meðal annars Paradísarmissi eftir enska skáldið John Milton (1608-1674).

Áfram héldu þeir félagar um Öxnadal og áðu eftir 19 klukkustunda reið á Flugumýri í Skagafirði þar sem hefur verið stórbýli allt frá Sturlungaöld. Daginn eftir héldu þeir för sinni áfram. Þeir þáðu hressingu að Hofstöðum en þaðan fóru þeir til Hóla í Hjaltadal. Reeves fór þaðan út í Drangey á meðan Fiske hvíldist. Þeir hittust síðan aftur að Hofstöðum þaðan sem þeir fóru suður og komu meðal annars við á Borðeyri, að Þingeyrum, fornum þingstað Húnvetninga, og Reykholti þar sem þeir gistu og böðuðu sig í Snorralaug. Fiske drakk í sig söguna og landslagið á þessum sögulegu slóðum Íslendingasagnanna Vatnsdæla söguLaxdæla sögu, og Egils sögu enda vel að sér í þeim. Þeir fóru síðan til Akraness, þar sem var vaxandi byggð. Alls staðar mætti þeim gestrisið fólk og fékk Fiske víða gefins íslenskar bækur. Honum þótti Íslendingar vel að sér og menntunarstigið hátt. Víða voru bækur og handrit á bæjum og sums staðar búið að stofna lestrarfélög og jafnvel bókasöfn sem urðu fólki hvatning til að lesa og fræðast.

Frá Akranesi sigldu þeir Fiske og Reeves til Reykjavíkur sem þá var varla meira en sveitaþorp sem samanstóð af lágreistum húsum og lóðum sem afmarkaðar voru með grjótgörðum. Þar var þó iðandi mannlíf og Fiske kunni strax vel við sig. Þrátt fyrir smæð og sveitamennsku var höfuðstaðarbragur á bænum, þar var þing landsmanna, Lærði skólinn, Dómkirkjan og fleiri stofnanir. Í Reykjavík hittu þeir annan nemanda Fiske, William H. Carpenter, sem Fiske hafði kveikt brennandi Íslandsáhuga hjá í náminu við Cornell-háskóla. Fiske og samferðamaður hans fengu inni á heimili frú Karólínu Sívertsen. Lítið var um mannsæmandi gistirými á Íslandi á þessum tíma og algengast að ferðafólk gisti í kirkjum. Og landið var almennt erfitt yfirferðar fyrir ferðafólk en þetta breyttist töluvert á síðari hluta 19. aldar þegar farið var að byggja brýr og leggja vegi. Frú Karólína var fædd Linnet og tengdafaðir hennar var Bjarni riddari (af Dannebrog) Sívertsen sem stundum er nefndur faðir Hafnarfjarðar vegna umsvifa hans í verslun þar en það er önnur saga. Það er hægt að setja endalaust margar áhugaverðar lykkjur á þessa ferðasögu Fiske og margt sem spennandi er að kynna sér betur. En hann Fiske átti ekki alla sjö dagana sæla meðan á ferðalaginu stóð því hann var nokkuð lélegur til heilsunnar vegna gigtar og var hann því stundum illa rólfær þess vegna. Hann neyddist því stundum til að taka sér hvíldardaga á meðan á ferðalaginu stóð.

Á þessum tíma höfðu flestir útlendingar fremur fátt jákvætt að segja um landann enda var hann aftarlega á merinni þegar kom til dæmis að húsakynnum og mataræði. Gaman er að geta þess að þegar Fiske fór til Íslands hafði þegar verið fjallað um Ísland í ferðahandbókinni A Handbook for Travellers sem kom út árið 1858. Þar var varað við því að ferðalög um landið væru erfið. Gistiaðstaða á heimilum væri enn fremur víða slæm og þá helst vegna sóðaskapar en gistiheimili voru fá á þessum tíma. Fiske var aftur á móti stórhrifinn af öllu sem fyrir augu bar. Hann dásamaði veitingar gestrisinna Íslendinga sem hvarvetna tóku honum opnum örmum. Í ferðinni hitti hann allflesta ráðamenn þjóðarinnar. Til dæmis bjó séra Matthías Jochumsson í Reykjavík á þessum tíma en hann hafði eins og fyrr segir sent Fiske sérstakt þakkarbréf fyrir bókagjöfina góðu auk þess sem hann fylgdist með ferðum hans um Ísland og skrifaði um þær í rit sitt Þjóðólf. Á milli þeirra myndaðist góð vinátta og skrifuðust þeir á eftir heimsóknina.

Sagan var Fiske mjög hugleikin því hann taldi hana vera tengingu mannsins bæði við nútíð og framtíð. Án meðvitundar um hana væri ekki hægt að ná tengingu við nútíðina og því síður við framtíðina. Hann hvatti því landsmenn til að rannsaka og kanna sögustaði landsins til að skapa þessa meðvitund og tengingu við fortíðina og heima hjá Matthíasi átti hann þátt í stofnun fornleifafélags á Íslandi til að vernda fornminjar á Íslandi og auka þekkingu á sögum og siðum í landinu. Fiske sendi félaginu seinna marga góða gripi sem hann safnaði á ferðalögum sínum til dæmis um Egyptaland enda mikið í mun að víkka sjóndeildarhring Íslendinga. Gripirnir eru varðveittir af Þjóðminjasafni Íslands.

Frá Reykjavík ferðaðist Fiske til Þingvalla auk þess sem hann ferðaðist um suðurland ásamt Carpenter, fyrrnefndum nemanda sínum úr Cornell-háskóla. Þeir skoðuðu saman Geysi í Haukadal og Strokk auk þess sem þeir héldu á slóðir Gunnars og félaga í Brennu-Njáls sögu. Þeir skoðuðu sögusvið Njálu, Hlíðarenda (heimkynni Gunnars) og Bergþórshvol (þar sem brennan varð) og gistu í Fljótshlíð. Þaðan héldu þeir að Heklu og fengu gistingu á bæ við Heklurætur. Að lokum heimsóttu þeir hinn forna menningarstað Odda þar sem Sæmundur fróði (1056-1133) var prestur en félagi Fiske, séra Matthías Jochumsson tók einmitt við prestakallinu ári eftir að Fiske yfirgaf landið, árið 1880, og var þar til ársins 1886 er hann fluttist til Akureyrar þar sem hann bjó til dauðadags.

Hinn 24. ágúst 1879 var haldin veisla í Reykjavík til heiðurs fyrsta landshöfðingjanum á Íslandi Hilmari Finsen (1824-1886) en sá varð borgarstjóri Kaupmannahafnar eftir að hann fór frá Íslandi. Fiske var annar heiðursgestur veislunnar og var það skýrt merki um það hve mikils metinn hann var hér á landi. Þar hélt hann ræðu þar sem hann sagði Ísland minna sig um margt á föðurland hans Bandaríkin og taldi hann mikla framfaramöguleika. Mönnum þótti mikið til þess koma að menntaður maður frá útlöndum sæi svo mikla möguleika í þessari litlu og einangruðu þjóð.

Eftir stutta dvöl í Reykjavík, eftir að hafa séð hvernig lífinu var háttað í sveitum landsins og í þéttbýlinu fannst þeim félögum mál til komið að kynna sér sjávarþorpin. Þeir sigldu því af stað með strandferðaskipinu Díönu 27. ágúst 1879 og sigldu umhverfis landið. Siglt var suður fyrir og austur, siglingin tók fjórtán daga og fengu þeir ljómandi gott veður. Fiske fékk þar gullið tækifæri til að kynnast fjölbreyttum hópi fólks. Skólapiltar á leið í Lærða skólann dáðust að honum og spjallaði hann mikið við þá. Hann skrifaðist síðan á við marga þeirra til dauðadags. Fiske var frá sér numinn yfir dásemdum landsins en piltarnir voru vanari neikvæðari umræðu svo þeir voru áhugasamir um það sem Fiske hafði fram að færa. Hann sýndi piltunum líka mikinn áhuga og fékk hann samferðamann til þess að skrá niður nöfn þeirra svo hann gleymdi þeim ekki. Hann tók sérstöku ástfóstri við Lærða skólann og sendi þeim fjölda bókagjafa eftir að hann yfirgaf Ísland. Þær voru sannarlega hvalreki fyrir nemendur skólans og í marsmánuði 1880 stofnuðu þeir lestrarfélag sem þeir nefndu Íþöku, honum til heiðurs. Auk bókagjafa sendi hann félaginu tímarit, ýmislegt myndefni og skákborð og taflmenn sem varð til þess að skákklúbbur var settur á fót í skólanum en Fiske var mjög mikill skákáhugamaður og gaf út og safnaði ýmsum ritum um skák sem hann gaf seinna Landsbókasafni Íslands. Fiske hafði trú á því að menntun væri lykillin að framförum. Hann var því óþreytandi í að hvetja landsmenn til þess að mennta sig og var duglegur við að útvega þeim ýmis verkfæri til þess.

Díana sigldi norður fyrir og framhjá Grímsey. Þar hefði Fiske sannarlega viljað fara í land en ekki voru tök á því. Fiske spurði mikið um mannlífið þar og var algjörlega heillaður af dugnaði og atorku íbúa eyjunnar og lofaði þá mjög. Einnig var hann áhugasamur um menningarlíf í eyjunni og vildi efla það enn frekar. Hann ákvað því að taka eyjarskeggja undir sinn verndarvæng. Hann langaði mikið til að skrifa bók um eyjuna og lífið þar en það varð aldrei úr. Hann safnaði þó heilmiklum upplýsingum um allt mögulegt sem tengist Grímsey og lífinu þar. Hann átti meðal annars í bréfaskiptum við Matthías Jochumsson, sem þá var fluttur norður til Akureyrar, og svo bróðurson hans, Matthías Eggertsson, sóknarprest í Grímsey. Fiske var sérstaklega hugleikið að stofna almenningsbókasafn í eyjunni. Hann hannaði sjálfur og lét byggja skápa undir fjölmörg stórmerkileg og vandlega valin rit sem hann gaf síðan Grímseyingum. Á skápunum stendur Eyjarbókasafnið I og II eins og Fiske hafði séð fyrir sér. Hann vildi að vel færi um bækurnar og nefndi sérstaklega að ef til vill gæti annar skápanna staðið heima hjá Árna Þorkelssyni, bónda í Neðri-Sandvík, en hinn heima hjá prestinum eða í kirkjunni. Þeir enduðu einmitt heima hjá syni Árna, sem sjálfur lést 1901, og hjá prestinum, Matthíasi Eggertssyni vegna hættu á því að þeir yrðu fyrir rakaskemmdum í kirkjunni. Þessir stórmerkilegu skápar eru enn til í Eyjunni og áhugasamir geta flett í fjölbreyttum ritum sem innihalda ýmsan fróðleik sem Fiske taldi að gæti orðið til að víkka sjóndeildarhring Grímseyjinga, gluggi inn í hinn stóra ef svo má að orði komast.

En Fiske hafði ekki eingöngu áhuga á því að auka bókakost eyjaskeggja því hann vildi líka útvega fjármagn svo hægt væri að byggja við prestssetrið. Úr varð að ráðist var í byggingu skólahúss í Grímsey eftir dauða Fiskes, á árunum 1905-06, fyrir fé sem Fiske gaf Grímseyingum. Bókasafnið var síðan varðveitt í skólahúsinu þar til skólinn var fluttur í félagsheimilið Múla þar sem hann er núna og bókasafnið líka. Og til að efla frekar skáklistina í eyjunni, sem þegar hafði átt góða skákmenn, sendi hann taflborð og taflmenn inn á hvert heimili í Grímsey. Skákina áleit Fiske mikla list og hina bestu heilaleikfimi og vildi því allt gera til að efla hana hvar sem hann hafði kost á. Þessi velviljaði ókunnugi maður snerti hjartarætur Grímseyinga og skrifuðust sumir á við hann en flest bréfin sem hafa varðveist á bókasafni Fiskes eru frá Matthíasi Eggertssyni og eru bréfin ómetanleg heimild um daglegt líf fólks. Í einu bréfinu nefnir hann að það sé magnað að ókunnugur útlendingur sýni eyjarskeggjum slíkan hlýhug, sérstaklega í ljósi þess að ekki bæri á slíku hjá þeirra eigin löndum sem margir hverjir höfðu miklar ranghugmyndir um lífið og íbúa eyjarinnar. Matthías skírði son sinn, fæddan í apríl 1902, í höfuðið á Fiske og hét sá fullu nafni Daníel Willard Fiske Matthíasson. Fleiri drengir voru síðar skírðir í höfuðið á honum. Sama ár sendi Fiske ljósmyndara frá Húsavík út í Grímsey til að taka myndir fyrir sig sem nú er varðveittar í Fiskesafninu í Cornell-háskóla. Fiske vann í raun ómetanlega heimildavinnu hvað varðar lífið í Grímsey og tók greinilega miklu ástfóstri við fólkið sem hann sendi fjölmargar gjafir auk þess sem að erfðaskrá hans kvað á um að 12 þúsund dollarar skyldu eyrnamerktir eflingu menningarlífs í Grímsey. Í virðingarskyni er hans minnst í Grímsey, haldnar eru samkomur á fæðingardegi hans ár hvert og reist var minnismerki honum til heiðurs árið 1998.

Þegar félagarnir komu aftur til Reykjavíkur úr þessari dásamlegu siglingu fengu þeir gistingu hjá Páli Melsteð (f. á Möðruvöllum 1812, d. 1910) og konu hans Þóru Melsteð (1823-1919), sem stofnuðu Kvennaskólann í Reykjavík árið 1874. Þóra var óvenju mikið menntuð miðað við konu á Íslandi þess tíma og mikill frumkvöðull í menntamálum kvenna. Hún hafði meðal annars stundað bók- og hannyrðanám í Kaupmannahöfn í heil fjögur ár og var vel að sér í því sem verið var að gera í menntamálum kvenna í öðrum löndum. Hún og Fiske höfðu því um margt að ræða enda hann mikill áhugamaður um menntun kvenna eins og fram hefur komið. Hún hafði ásamt systur sinni, Ágústu, komið á fót stúlknaskóla á árunum 1851-1853. En hér var mikil fátækt og landsmenn „[…] vanafastir, áræðalitlir, og stjórn landsins framtakslítil til endurbóta“ (Bogi Th. Melsteð, 1924:8). Ísland var að mestu læknislaust auk þess sem peningar sáust sjaldan enda fóru flest viðskipti fram með vöruskiptum. Enn fremur þótti lítil ástæða til að mennta konur og óþarft að breyta því. En hér verður ekki farið dýpra í þessa sögu (þó hugsanlega seinna því þetta hefur verið mögnuð kona og áhugavert að lesa um hana) en ég verð auðvitað að minnast á að ég stundaði nám við Kvennaskólann og því er hann og saga hans mér hugleikin. En aftur að Fiske og hans ævintýrum.

Fiske tók þátt í þjóðhátíð sem haldin var 2. ágúst 1879 í Reykjavík í tilefni af fimm ára afmæli stjórnarskrárinnar sem Kristján IX, þáverandi Danakonungur, hafði afhent Íslendingum á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar. Fram að brottförinni naut Fiske þess að vera í Reykjavík, hitti áhugavert fólk og þáði boð í síðdegiskaffi og kvöldverði. Þann 11. október 1879 var svo haldin kveðjuveisla Fiske og félögum hans til heiðurs. Veislan var haldin í húsi sem nefndist Glasgow, veglegasta húsi bæjarins, en það brann árið 1903. Borðin svignuðu undan kræsingum og færri komust að sem vildu því þeir voru fjölmargir sem vildu kveðja Fiske. Fram kom í Þjóðólfi að séð hafi verið til þess að þeir sem kæmust að væru af sem flestum stéttum, en þó einkum bændur, enda hafði Fiske farið víða og spjallað við marga. Fiske hélt þakkarræðu og flutt var lag og ljóð honum til heiðurs. Hann og Reeves héldu síðan heim á leið þann 18. október, hrærðir yfir gestrisni heimamanna og þeim góðu kveðjum sem þeir höfðu fengið. Fiske snéri aldrei aftur til Íslands þrátt fyrir að langa til þess því heilsa hann leyfði það ekki. Hann hafði þó sannarlega sett mark sitt á sögueyjuna í norðri og ekki síður fólkið og átti hann í góðu sambandi við fjölmarga Íslendinga eftir þessa heimsókn. Meðal annars spruttu upp skákfélög um allt land auk þess sem Fiske gaf út litla bók sem geymdi góð ráð og upplýsingar fyrir þá sem vildu ferðast til Íslands.

Eftir nokkurra mánaða stopp í Berlín hélt Fiske suður á bóginn til fundar við ástmey sína. Hann hélt þó áfram að hafa áhrif á Íslendinga. Hann skrifaði nú af meiri skerpu um land og þjóð í erlendum ritum enda hafði hann nú kynnst því af eigin raun. Íslensk blöð greindu frá þessum skrifum og voru landsmenn Fiske mjög  þakklátir. Hann kynnti landið víða og þá ekki síst íslenskar bókmenntir. Hann sendi líka fjölmarga böggla á hina ýmsu staði á landinu þar til hann lést í september 1904. Fiske var orðinn ansi fær í íslenskunni og tók upp á því að þýða íslensk ljóð. Í bók Kristínar Bragadóttur kemur fram að hann hafi meðal annars þýtt ljóðið Við hafið eftir Steingrím Thorsteinsson. Hann kallaði ljóðið By the sea og „birti í Cornell Era og merkti með upphafsstöfum sínum“ (2008:120). Mér finnst vel hægt að skilja þetta þannig að Fiske hafi nánast eignað sér ljóð Íslendingana. Ég kíkti því aðeins á þetta rit, Cornell Era, og þar eru ljóðin vel merkt höfundum þeirra.

Bækur og gjafir frá Fiske hafa verið hvalreki fyrir Íslendinga, tækifæri fyrir þá til að skoða það sem var að gerast annars staðar í heiminum. Svo var það líka þannig með þessar bókagjafir að þessu var ekki hent í kassa af handahófi heldur var mikil natni lögð í valið á öllu því sem sent var til landsins. Fiske vildi að Íslendingar fengju brot af því besta og að þeir fengju smjörþefinn af því sem var að gerast úti í heimi. Íslendingar sendu honum ótal þakkarbréf en auðvitað báðu margir um greiða, lán eða styrki fyrir hinu og þessu og aðstoð við ýmsar framkvæmdir.

Eftir endurfundi Fiskes og hans heittelskuðu Jenniear í Róm ákváðu þau fljótlega að ganga í hjónaband. Þau voru gefin saman í borgaralegri vígslu í Berlín þann 14. júlí 1880, stuttu eftir dauða föður hennar. Fyrir athöfnina skrifaði Fiske undir skjal þess efnis að hann ætti engan rétt á eignum Jenniear eftir hennar dag og hafði hann ekki minnsta áhuga á neinu slíku. Þau ferðuðust og nýttu tímann vel en þegar hún var orðin mjög veik vildi hún halda heim á leið, til Íþöku. Þau rétt náðu þangað áður en hún lést úr berklum 30. september 1881. Í kjölfarið fór af stað ömurleg erfðadeila þar sem bitist var á um þau auðæfi sem Jennie lét eftir sig. Sumir töldu Fiske aðeins hafa gifst Jennie vegna auðæfa hennar og að hegðun hans á ferðalögum hafi verið aðfinnsluverð. Ég býst við að það þýði að heyrst hafi sögur af honum í selskap einhverra kvenna, eða ég geri í það minnsta ráð fyrir því. Háskólinn gaf ekkert eftir, vildi meira fé en Jennie hafði ánafnað honum og af stað fóru heilmikil málaferli. Margur verður af aurum api og allt það, það var svolítið þannig stemming. Skórinn var níddur af Fiske og hann úthrópaður gráðugur óþverri. Sagan segir að mamma hans hafi meira að segja haft þá skoðun. Hann sagði endanlega upp stöðu sinni við Cornell-háskóla 20. júní 1883 og var þá orðinn með fasta búsetu í Flórens þó hann ferðaðist víða. Hann hafði litla lyst á að snúa aftur til Bandaríkjanna eftir öll leiðindin og loftslagið á Ítalíu hentaði afar vel gigtveikum manni auk þess sem menningarlífið var stórkostlegt.

Fiske hélt áfram að safna ýmsum íslenskum ritum. Fjölmörg fékk hann send frá Íslendingum og greiddi hann vel fyrir. Hægt er að lesa um þetta í bók Kristínar Bragadóttur ef áhugi er fyrir því. Þegar safnið hans í Flórens var orðið mjög umfangsmikið réði hann ungan íslenskan mann, Halldór Hermannson, til að skipuleggja það og starfaði hann fyrir Fiske frá árinu 1899. Hann var aðeins rúmlega eins árs þegar Fiske kom hingað til lands en síðar varð hann prófessor við Cornell-háskóla. Ráðning Halldórs reyndist mikið gæfuspor því hann var afkastamikill og byggði safn Fiskes upp af miklum myndarskap en hann starfaði við safnið með hléum til dauða Fiskes 1904. Það var vitaskuld súrt í broti fyrir Íslendinga að sjá eftir mörgum verðmætum ritum í hendur Fiskes en það var nú svo að hann hafði mun betri aðstöðu til að geyma þau heldur en hægt var að fá hér á landi. Það var til að mynda ekki fyrr en árið 1909 sem hið glæsilega Safnahús við Hverfisgötu var tekið í notkun og þá eignuðust bækur landands varanlega gott heimili en fram að því var þvælst með bækur og rit á milli geymslustaða og engin almennileg lesaðstaða var í boði fyrir safnagesti þeirra bókasafna sem fyrir voru í Reykjavík, þjóðbókasafninu og bókasafni Lærða skólans. Eftir lát Fiskes fengu Íslendingar veglega bókagjöf frá honum sem ekki var hægt að taka í notkun fyrr en fyrrnefnt Safnahús var tekið í notkun vegna plássleysis á hinum söfnunum.

Fiske varði síðustu árum sínum í Flórens en þar væsti sannarlega ekki um hann. Hann bjó í stóru húsi sem hann hafði látið gera upp og byggja við og var með þjónustufólk auk starfsmanna við bókasafn sitt. Gigtin ágerðist með árunum auk þess sem hann fékk að minnsta kosti eitt hjartaáfall. Heilsuleysið átti illa við lúsiðinn Fiske en hann lét það þó ekki stöðva sig og ferðaðist til að mynda víða með hjálp aðstoðarmanns síns. Eftir 1902 var mikið um heilsuleysið í bréfaskrifum hans. Hann lagðist inn á sjúkrahús á ferðalagi um Þýskaland í september 1904 en legan var stutt og 17. september var þessi Íslandsvinur og velgjörðamaður allur. Lík hans var flutt til Bandaríkjanna og hann fékk hinstu hvílu við hlið Jenniear sinnar í Íþöku, á háskólasvæði Cornell-háskólans. Mörgum ofbauð að hann skyldi, eftir allt sem á undan gekk, vera kominn til að vera á háskólasvæðinu  en margir höfðu margt gott að segja og meðal annars birtust hlý orð í blöðum hér á landi.

Það er margt sem hægt er að skoða um Fiske og fer kannski eftir áhugasviði hvers og eins. Hægt er að nálgast ágæta útlistun á erfðamálinu mikla og einnig um skákáhuga og útgáfu Fiske á skákritum en það er allt of langt mál að ætla dýpra í þessi atriði hér og nú auk þess sem ég dett fljótlega út þegar ég les þá kafla. Það sem ég vildi helst læra um var Íslandsferðin og Grímseyjaráhugi Fiskes og það hef ég aldeilis lært margt um. Ég hef líka fundið þræði sem mig langar að eltast við, til dæmis langar mig að lesa meira um Þóru Melsteð svo dæmi sé tekið. En Fiske þessi var aldeilis magnaður, að taka svona ástfóstri við Ísland löngu áður en hann kom hingað og hann hafði líka alltaf þessa tröllatrú á landi og þjóð. Svo ég tali nú ekki um óbrennandi áhugann á Grímsey, staðarins sem hann aldrei kom til.

HEIMILDIR

Bogi Th. Melsteð. (1924). Frú Þóra Melsteð. 1823 – 18. desember – 1923. Óðinn 20(1-6), 7–10.

Kristín Bragadóttir. (2008). Willard Fiske: vinur Íslands og velgjörðamaður. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Halldór Hermannson. (1905). Willard Fiske. Eimreiðin, 11(2), 104–109.

Hjalti Þór Hreinsson. (2010). Saga amtsbókasafnsins á Akureyri. Sótt 19. júlí 2014 af http://www.akureyri.is/amtsbokasafn/saga

Aðalgeir Kristjánsson. (2001). Háskólakennsla Gísla Brynjúlfssonar. Andvari 126(1), 72–99.

Leifur Reynisson. (2010, 28. maí). Sótt 5. júlí 2014 af https://visindavefur.hi.is/svar.php?id=56117

M (1903, 18. apríl). ‚Glasgow‘ brunnin. Ísafold 30(19), 74–75. Sótt 30. júlí 2014 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=273604&pageId=3941462&lang=is&q=%FEj%F3%F0%F3lfur

Skilnaðarsamsæti. (1879, 15. október). Þjóðólfur 31(27), 105. Sótt 30. júlí 2014 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=136297&lang=1

Sigurður Árni Þórðarson. (2006, 11. nóvember). Matthías Jochumsson. Sótt 19. júlí 2014 af http://tru.is/pistlar/2006/11/matthias-jochumsson/

Ljóðið eftir Matthías Jochumsson. Kveðið við burtför prófessor W. Fiske frá Íslandi 15. okt. 1879. Norðlingur 4(57-58), 229–230. Sótt 30. júlí 2014 af
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2124951