Sudbury vika í Hrísey, Fiske og framhald

Önnin líður hraðar en við gerum okkur grein fyrir og allt í einu er að líða að lokum nóvember.

Í lok október heimsóttum við vini okkar í Hríseyjarskóla og eyddum með þeim einni skólaviku, svokallaðri Sudbury viku. Nemendur fundu sér viðfangsefni, undirbjuggu áætlanir og unnu eftir þeim. Það var prjónað, spilað á gítar, eitthvað unnið í námsbókum og ýmislegt fleira áhugavert. Heimsókninni lauk með kvöldvöku unglingadeildar og svo tók við góð helgi hjá fjölskyldum á Akureyri áður en haldið var heim.

Þann 11. nóvember ár hvert höldum við Grímseyingar upp á þjóðhátíðardag okkar. Sá dagur er afmælisdagur velgjörðarmanns okkar, Daniel Willard Fiske. Hefð er fyrir því að grunnskólanemendur sjái um skemmtiatriði á hátíðinni og þetta árið var búið að taka upp og klippa myndband á Ipad. Vegna tækniegra örðugleika (og mögulega klaufaskaps skólastjórans) reyndist ekki unnt að sýna það á hátíðinni en við stefnum á að sýna það á Lúsíunni, 13. desember, í staðinn.

Annars er ótrúlega stutt í jólafrí en þangað til höldum við okkar striki að mestu, nemum, kennum og njótum.

Comments are closed.