Nýtt ár 2019

Góðan daginn og gleðilegt ár!

Það sem af er ári hefur verið nóg að gera hjá okkur, mikið um gestanemendur í báðum deildum og mikið stuð.

Skólinn hófst eftir jólafrí með námsmati og viðtölum. Gullfiskurinn Salka fékk félaga, meira að segja tvo, en hvorugur lifði af til lengdar umskiptin frá Dýraríkinu í kúluna í Grímseyjarskóla. Enn ein tilraun til félagakaupa verður gerð í næstu landferð skólastjóra.

Óvenjumikill snjór hefur verið í eyjunni og nýttu leikskólabörnin sér það til hins ýtrasta. Við erum samt sem áður farin að sjá lunda í bökkunum og jafnvel kríuna í hillingum.

Hefðin í Grímsey er að aðfaranótt Bolludags ganga börn á skólaaldri um eyjuna og bolla þá sem skilja eftir ólæst og fá að launum sælgæti. Venjulega þurfa þau að hafa í huga að vera komin í húsin áður enn sjómenn vakna en í ár var bræla svo óhætt var að fara seinna af stað. Á  Bolludag sjálfan er svo frí í skólanum, svona svo krakkarnir geti legið á meltunni.

Öskudagurinn er alltaf vinsæll í Grímsey og mörg börn sem eiga ekki vetursetu í eynni sem koma og taka þátt. Það er samstarsverkefni allra eyjaskeggja að dagurinn gangi vel og skemmtilega.

Nemendur og gestanemendur mættu í skólann á venjulegum tíma að morgni en fengu svo að fara heim um miðjan morgun að undirbúa búninga. Allir mættu svo tilbúnir um hádegi og eftir myndatökur var lagt stað niður í ferju þar sem byrjað var að syngja fyrir áhöfnina og svo áfram í önnur fyrirtæki. Þrátt fyrir mokfiskerí gáfu allir sér tíma til að stöðva vinnu í smástund til að hlusta á söng. Söngferðalaginu lauk í útgerðinni Sigurbirninum að venju þar sem kiwanisklúbburinn Grímur stóð fyrir kettinum í tunnunni. Tunnudrottning öskudagsins 2019 var Helga Hrund Þórsdóttir í 9. bekk og hlaut hún að launum 5000 kr. frá kiwanisklúbbnum. Þegar allir höfðu hent sér á nammið úr tunnunni héldu allir suður í skóla þar sem kvenfélagið Baugur var með tilbúið pylsuhlaðborð til að ljúka þessum skemmtilega degi.

Að öðru leiti gengur allt sinn vanagang með bóklegu og verklegu námi og svo að sjálfsögðu samræmdu könnunarprófunum sem lauk í dag.

Í næstu viku er svo heilsuvika í Grímseyjarskóla. Boðið verður upp á hafragraut í fyrstu frímínútum og unglingarnir fræddir um heilsu, hreysti og næringu. Svo er bara ótrúlega stutt í páskafrí, tíminn líður svo hratt (mögulega finnst nemendum það síður en mér 😉 )!

Þangað til næst, hafið það gott!

Comments are closed.