Skólablogg 2015-2017

GLEÐILEGT HAUST

9/13/2017

Þá erum við komin í fullan gang þetta haustið. Það er fámennt en góðmennt hjá okkur, og allir í eldri deild, sem einnig gerir okkur kleift að haga kennslunni á nýjan hátt. Skipulagið sem við erum að prófa okkur áfram í núna er þannig að bókfögin; enska, danska. stærðfræði og íslenska sameinast að miklu leiti í svokallaðar vinnustundir sem ná yfir meirihluta morgnanna, þó eru stýrðir tímar á mánudagsmorgnum og áætlunartími í vikulok svo nemendur og kennarar hafi yfirsýn yfir vikuna. Þá eru nemendur með áætlanir í þessum fögum og vinna þær eftir hentugleika, svo fremi sem þau skili unninni áætlun í vikulok. Þetta er heilmikið frelsi, þar sem nemendur eru ekki skikkaðir í ákveðið fag á ákveðnum tíma og kennir þeim þar að auki að taka ábyrgð á eigin námi. Einn nemandi í 5. bekk bjó til málshátt af þessu tilefni: „Leiðinlegt er betur unnið fyrst“.
Seinnipart skóladagsins eru svo samfélagsgreinar og list- og verkgreinar, sem eru kenndar í lotum, auk íþrótta þrisvar í viku. Þetta fyrirkomulag má sjá betur á stundatöflunni sem er undir „skólastarfið -> stundaskrár“ hér í borðanum fyrir ofan.
Þar er einnig kominn nýr hnappur að nafni „Læsi er lykillinn“ sem er slóð á síðu læsisstefnu Akureyrarbæjar.
Í öðrum fréttum hefur Grímseyjarskóli (og þ.a.l. félagsheimilið Múli) nú tekið upp virka flokkun. Eru nú komnar sérstakar ruslatunnur fyrir pappír, fernur og plast auk þess sem tilfallandi ál er tekið frá. Lífrænn úrgangur á það svo til að enda í goggi fiðurfénaðs eyjarinnar.

Í skemmtilegustu fréttunum er nýi ærslabelgurinn okkar Grímseyinga! Hann er staðsettur sunnan við skólann og kemur sennilega til með að verða vinsælasta leiktæki barnanna, já og þeirra fullorðnu. Við þurfum bara að leysa vandamálið með bleytuna á morgnana, erum að spá í að kaupa sundlaugarsköfu!

Þetta eru svona aðalfréttirnar úr skólastarfi Grímseyjarskóla að svo stöddu. Þangað til næst – góðar stundir!

-knh

 

LEIÐTOGAR Í EIGIN NÁMI

1/26/2017

Þessa vikuna er svokölluð LEN – vika hjá okkur í Grímseyjarskóla. Skammstöfunin LEN stendur fyrir Leiðtogar í eigin námi en það er þróunarverkefni sem við vinnum að ásamt Hríseyjarskóla.


Hugmyndafræði verkefnisins kemur upprunalega frá Sudbury Valley School í Bandaríkjunum en eftir þeirri hugmyndafræði er unnið í rúmlega 60 skólum víðsvegar um heiminn.
Þá skipuleggja nemendur sitt eigið nám frá grunni út frá sínum áhugamálum, taka lýðræðislegar ákvarðanir í félagi við starfsmenn skólanna og vinna á sínum forsendum.

Við höfum aðlagað og staðfært þessa hugmyndafræði að hluta og gert úr henni skemmtilega uppbrotsviku. Nemendur skipulögðu vikuna sína í síðustu viku og bjuggu til áætlun til þess að fara eftir. Markmiðin eru helst þau að þjálfast í að skipuleggja sig, taka ábyrgð á eigin námi og að sjálfsögðu að hafa gaman!

Krakkarnir hafa brallað ýmislegt það sem af er viku. Hér er reiknað, teiknað, lesin Laxdæla jafnt sem skáldsögur og textabækur í dönsku og ensku, gerðar tilraunir með hinum ýmsu efnum og sullað svolítið í leiðinni, framleidd stop-motion myndbönd, grúskað í forritun og æfð förðun og hárgreiðsla.

Nokkrar myndir fá að fljóta með!

Picture

Picture

Picture

Picture

Picture

Picture

​Það hefur ýmislegt á daga okkar hér í Grímseyjarskóla drifið síðan síðast. Þann 11. nóvember var þjóðhátíðardagur okkar Grímseyinga, Fiske-afmæli í daglegu tali, haldinn hátíðlegur. Um Daniel Willard Fiske og hátíðina má lesa betur um undir Grímsey hér á síðunni. Samkvæmt venju er atriði frá skólabörnum stór hluti hátíðahaldanna og þetta árið höfðu þau samið, leikið í og framleitt stuttmynd í „skaups-stíl“ og sýnt við góðar undirtektir.
Þann sama dag hafði sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi ráðgert að heimsækja eyna og skólann. Þó setti veðrið strik í reikninginn eins
 og vill stundum verða og ekki var flogið til Grímseyjar þennan daginn. Sendiherrann og hans fylgdarlið létu þó ekki deigan síga og flugu til okkar á sunnudeginum í nokkuð tvísýnu veðri. Þá náði hann að skoða vitann, Fiske-safnið og skólann áður en kallað var út í vél í skyndi vegna veðurútlits.

Picture

Stelpurnar í Eldri deild litu við í skólanum á frídegi til að spjalla við gestina.
​Á myndini eru, frá vinstri: Alexander sonur sendiherrans, Robert Barber sendiherra, Sigrún Edda 8. bekk, Helga Hrund 7. bekk, Brá 6. bekk, Katrín Nicola 8. bekk, Karen Nótt skólastjóri og Jeremy aðstoðarmaður sendiherrans.
Síðastliðinn þriðjudag, þann 13. desember, héldum við svo Lúsíuhátíðina okkar. Það er hefð sem Helga Mattína, kona Dónalds fyrrum skólastjóra og kennari við skólann, kom á fyrir mörgum árum. Þá er foreldrum og öðrum aðstandendum boðið til okkar seinni part dags og er elsta stúlkan sem ekki hefur verið Lúsían áður, Lúsía ársins með ljósakórónu á höfði. Krakkarnir syngja svo staðfærða útgáfu af Santa Lucia fyrir gesti og í ár sungu þau einnig Grýlukvæði auk þess að sýna myndband þar sem þau höfðu, ásamt Guðrúnu Ingu kennara, samið jólasögu, lesið hana inn á Ipadinn og teiknað myndir við og Guðrún skeytt saman í IMovie. Að lokum var gestum boðið upp á kaffi og smákökur (3 sortir!) sem höfðu verið bakaðar um daginn.
Því miður láðist alveg að taka myndir en þið verðið bara að sjá þetta fyrir ykkur 😉

Framundan eru svo örfáir skóladagar og Litlu-jól skólans sem verða síðdegis þriðjudaginn 20. desember. Eftir þau fara allir í notalegt jólafrí sem verður væntanlega vel þegið J

 
Gleðileg jól öll sömul og hafið það sem allra best yfir hátíðirnar!

10/26/2016

Nú er komið vel fram í október og skólastarfið hjá okkur komið á fullt skrið. Við höfum ýmislegt brasað; farið í plöntusöfnunarferð og í plöntugreiningu í framhaldinu, stúderað landnám Íslands og Eldri deildin er komin vel á veg með Laxdælu. Að auki framleiða þau hvert listaverkið á ætur öðru.


Meiri hluti nemendanna prófaði einnig að fara í hina ýmsu skóla í landi á meðan flest fullorðna fólkið í eyjunni stakk af til útlanda í tvær vikur.
Á döfinni hjá okkur núna, auk hins hefðbundna, er undirbúningur fyrir Halloween en nemendafélagið stendur fyrir Hrekkjavökupartýi á föstudaginn með leikjum, veitingasölu og diskóteki. ALLIR VELKOMNIR! 500 kr. inn 🙂

Svo er Fiske-afmæli á næsta leiti þar sem nemendur Grímseyjarskóla eru samkvæmt venju stór hluti dagskrár.

Ein mynd í tilefni Hrekkjavöku en fleiri koma inn eftir partý til að spilla ekki upplifun partýgesta.

Picture

Við ákváðum að nýta okkur samspil leiks og náms til hins ítrasta nú eftir áramót og bjuggum til námsspil. Þá semja kennarar spurningar úr námsefninu (náttúrufræði, samfélagsfræði, íslensku, stærðfræði og ensku auk sérstaks spurningaflokks fyrir yngri deild). Nemendur hafa líka lagt til spurningar, bæði sem sérstök verkefni sem lögð eru fram af kennurum og einnig af eigin frumkvæði. Nemendur „ferðast“ svo um Ísland á landakorti sem búið er að líma á límmiða í fimm litum, einn fyrir hvern spurningaflokk. Áður en spilið hefst fær hver leikmaður að draga eitt bæjarnafn og veki hann athygli á því þegar hann fer framhjá bæjarfélaginu sem hann dró þá fær hann aukakast. Þetta var hugsað til að gera nemendur meðvitaðri um landið okkar. Þeir rýna í kortið til að sjá hvar þeirra bæjarfélag er svo þeir missi ekki af því í hita leiksins. Spilið er enn í vinnslu og á eftir að bæta við hindrunum og að sjálfsögðu fleiri spurningum. Nemendur hafa skemmt sér vel við að spila þetta spil og hefur þetta heppnast mjög vel. Við trúum því að með þessari aðferð tileinki nemendur sér námsefnið í skemmtilegum leik auk þess sem þeir sýna metnað til að læra efnið til að þeim gangi betur í spilinu.

Við höfum síðan fundið fleiri aðferðir til að nýta okkur spilið. Síðasta miðvikudag var kaffihúsadagur hjá eldri deild þar sem nemendur og kennarar bökuðu og buðu eyjarskeggjum kökur, kaffi og heitt súkkulaði til kaups til að safna fé í ferðasjóð. Þetta heppnaðist mjög vel. Auk þess var kaffihúsagestum boðið upp á að taka þátt í skólaquiz-i sem við bjuggum til upp úr námsspilinu og notuðum spurningar úr því. Séð var til þess að hvert lið hefði í það minnsta einn nemanda innanborðs og var þetta okkar leið til að sýna foreldrum og öðrum áhugasömum hvað krakkarnir eru að læra í skólanum. Þetta vakti mikla lukku og voru foreldrar sérstaklega ánægðir með að sjá áhugasama nemendur brjóta heilann og reyna að fiska svörin úr minni sínu.

Picture

Hér eru spurningaspjöld ylvolg úr plöstunarvélinni og bíða þess að vera klippt niður.
Spilið heitir Námsspil Grímseyjarskóla eins og sjá má.

Picture

Hér eru spilin komin í sérútbúinn kassa. Allt heimatilbúið.

Picture

Nemendur niðursokknir.

HEILSUVIKA 2015

11/12/2015

​Í þessari viku höfum við brotið upp skólastarfið með heilsuviku. Við lögðum því bóknámið til hliðar þessa vikuna og höfum fengið til okkar tvo gestakennara, þær Ingu Matthíasdóttur og Leu Gestsdóttur Gayet. Þær eru báðar ættaðar héðan úr Grímsey og báðar búnar að vekja mjög mikla lukku bæði hjá nemendum og kennurum Grímseyjarskóla. Inga kennir sund, íþróttir og dans og Lea kennir frönsku og heimsspeki. Þetta hefur því verið mjög óvenjuleg vika hjá okkur en sannarlega spennandi og skemmtileg. Kennararnir hafa séð um að matbúa fyrir börnin hollan og góðan mat í hádeginu svo þau hafi orku til að gera sitt besta í öllu því sem þau taka sér fyrir hendur. Á hverjum degi er boðið upp á krefjandi hreyfingu fyrir nemendur: dans, þol- og styrktarþjálfun, sund og/eða jóga auk andlegrar næringar í formi frönskunáms fyrir byrjendur og heimsspekilegs spjalls. Við settum líka upp næringartöflur til að við gætum skoðað ýmis matvæli og hvers virði þau eru okkur þegar kemur að orku. Aðaláherslan er því lögð á hreysti og mikilvægi þess.

Í tilefni af Fiske-afmælinu í gær var blásið til mikillar veislu eins og ár hvert en í þetta sinn slóu nemendur öll met þegar þau sýndu marseringu og skottís auk þess að kynna sig og syngja á frönsku fyrir afmælisgesti eftir aðeins örfárra klukkustunda æfingu. Geri aðrir betur!

Það er öllum til góða að fá nýtt blóð inn í skólann. Krakkarnir okkar njóta þess að læra eitthvað nýtt og það að fá fleiri raddir skapar öflugri samræðu í skólastarfinu. Við erum því mjög þakklát þeim frænkum fyrir að hafa nært okkur með nýjum fróðleik og hreyfingu og vonum að þær njóti verunnar hérna hjá okkur.

FISKE 2015

11/12/2015

Í gær var haldið upp á afmælisdag Daniels Willards Fiske, velgjörðarmanns Íslendinga en þó sérstaklega Grímseyinga. Hann var Bandaríkjamaður sem var heillaður af Norðurlöndum, kom hingað til lands árið 1879 og sigldi framhjá Grímsey á ferð sinni í kringum landið. Hann var svo heillaður af töffaraskapnum í fólkinu sem hérna bjó að hann gerðist sérstakur velgjörðarmaður þeirra. Ég hvet áhugasama um að lesa um manninn.

Í tilefni af afmælinu er haldin kökuveisla ár hvert á vegum kvenfélagsins og öllum í eyjunni boðið til að minnast afmælisbarnsins. Auk þess hefur skapast hefð fyrir því að grunnskólabörnin séu með einhverja sýningu á þessum degi. Í ár vorum við ansi heppin því hér eru hjá okkur tveir gestakennarar, frænkurnar Inga Matthíasdóttir og Lea Gestsdóttir Gayet, (meira um þær hér) ættaðar frá Grímsey enda drifkrafturinn slíkur að skellt var í danssýningu og síðan sungu krakkarnir á frönsku. Dásamlegt. Krakkarnir sýndu líka myndbönd en við höfum unnið hörðum höndum að gerð þeirra.

Við horfðum saman á kvikmyndina The Truman Show í skólanum og gerðum svo myndband sem innblásið er af efni myndarinnar. Myndin fjallar um Truman, mann sem býr í sjónvarpsþætti. Hann býr í risastóru stúdíói þar sem allir í kringum hann eru ráðnir leikarar og allt sem þeir gera fer eftir fyrirfram ákveðnu handriti. Þessu eru öllu stýrt úr stjórnstöð þar sem leikstjóri þáttarins situr ásamt aðstoðarfólki. Hann fer síðan að gruna að eitthvað sé athugavert við líf sitt en ég vil ekki segja meira um það heldur hvet alla til að horfa á myndina.

Í stuttmyndinni okkar er Grímsey yfirgefin eyja, allir íbúar farnir en blekkingarleik viðhaldið til að lokka að ferðamenn og selja þeim sem mest af handverki. Þannig að þegar von er á ferðamönnum þá eru kallaðir út leikarar sem sjá um að manna eyjuna og þurfa þeir jafnvel að leika fleiri en einn eyjarskeggja á meðan á meðan á dvöl ferðamannanna stendur. Starfsmenn í stjórnstöð fylgjast með ferðum ferðamannanna um eyjuna og stýra leikurunum í takt við þær. Við gerð myndarinnar notuðumst við við söguramma þannig að hvert atriði var fyrirfram skipulagt og leitast við að nýta tíma og tökustaði sem best. Krakkarnir stóðu sig stórkostlega vel og við vorum meira að segja búin að ganga frá öllu nokkrum dögum fyrir sýningardaginn.

Hitt myndbandið inniheldur fjórar gamansögur af foreldrum barnanna. Þær halda á lofti þeirri gullnu reglu að láta ekki góða sögu gjalda sannleikans. Þær eru unnar út frá hugmyndum krakkanna við unnum saman að útfærslu og framkvæmd. Til hamingju krakkar!

Þá er september rúmlega hálfnaður og við búin að bardúsa ýmislegt. Á alþjóðadegi læsis 8. september hófum við lestrarátak, vígðum bókaorminn okkar (sem hlaut nafnið Engilbert Sigurlína í lýðræðislegri kosningu) og settum 5. og 6. bekk fyrir heimalestur. Engilbert er enn svolítið stuttur en við vinnum að því að lengja hann. Við höfum reyndar verið dálítið fá síðustu daga þar sem nokkrir nemendur fóru í land til að sinna smalamennsku auk þess sem 9. bekkingurinn okkar hefur verið þessa viku í skóla í landi. En hvað um það, við höfum haldið okkar striki og lært og leikið okkur.

Í gær, á degi íslenskrar náttúru og á afmælisdegi Ómars Ragnarssonar, fórum við af stað með verkefni sem við ætlum að kalla Græna eyjan okkar og vísar það til þess hve græn við ætlum að vera í vetur. Við ætlum að vera dugleg að flokka og endurvinna, finna leiðir til að spara orku og efni og ýmislegt fleira þessu tengt. Eldri nemandinn okkar í yngri deild, 3. bekkingurinn Gabríel Birkir, verður verkefnisstjóri og yngri deild kemur til með að vera áberandi í þessu verkefni en að sjálfsögðu þurfum við öll að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þessu verkefni. Við hófum átakið á vettvangsferð niður að gámasvæði þar sem við komumst að því að sárvantar gám fyrir pappír. Við sendum því póst á gámaþjónustuna og bentum á það. Við æfðum okkur síðan í flokkun og notuðum tækifærið og gerðum tölfræðiverkefni í leiðinni.

Í morgun var í heimsókn hjá okkur franskt heimildamyndargerðarfólk en það er nokkuð um það að hingað komi fólk í þessum erindagjörðum enda erum við afar áhugavert fólk. Í gær kom til okkar kona frá New York sem stoppaði góða stund og spjallaði við krakkana. Það er semsagt engin lognmolla hjá okkur þrátt fyrir fámennið. Fylgist endilega með okkur á Fésbókinni og gaman væri að fá athugasemdir til að sjá hverir fylgjast með okkur.

Með grænum lestrarkveðjum, Sigrún

Picture

Nú erum við að leggja í’ann í Grímseyjarskóla. Þemadagarnir búnir en þeir snérust um heimabyggðina. Við gerðum margt skemmtilegt, veltum fyrir okkur framtíðarmöguleikum, hvað hér er vel gert og hvað betur má fara. Við fórum í vettvangsferð og nemendur settu sig í spor ferðamanna sem koma úr ferjunni og var okkur öllum boðið óvænt í hamborgaraveislu á veitingastað eyjunnar, Kríunni. Nemendur gerðu svo ritunarverkefni sem fólst í því að þau skrifuðu bréf „heim“ og voru þau bréf metnaðarfull og skemmtileg. Nú eru nemendur að leggja lokahönd á myndbandsverkefni þar sem þau búa til fréttaþátt sem samanstendur af spennandi Grímseyjar-fréttum. Við byrjuðum líka að fara aðeins yfir nýju skólareglurnar okkar og krakkarnir bjuggu til spjöld með nokkrum umgengnisreglum.

Í dag er síðasti sumar-ferjudagur og ferjan komin í glæsilegan búning eftir Akureyrarvöku. Við fórum því í gönguferð niður á höfn og skoðuðum þetta fallega listaverk eftir listamanninn Guido van Helten sem meðal annars hefur unnið listaverk í miðbæ Akureyrar. Svo skemmtilega vildi til að listamaðurinn var um borð í ferjunni ásamt heimildamyndagerðarkonu sem ætlar að eiga við okkur spjall á Kríunni á eftir.

Á döfinni: 
Á morgun ætlum við að mála leiktækin á leikvellinum okkar. Þannig höldum við áfram að leggja rækt við heimabyggðina okkar og nærumhverfi. Síðan byrjar skólinn á fullu samkvæmt stundaskrá á miðvikudaginn.

Eins og margir vita ferðast Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, nú um landið og skrifar undir þjóðarsáttmála um læsi. Við ætlum að sjálfsögðu að vera með og núna á miðvikudaginn 8. september, á Alþjóðadegi læsis, hrindum við af stað lestrarátaki í Grímseyjarskóla. Við erum búin að setja upp bókaormshöfuðið og þá er bara að bæta á hann búknum hægt og rólega í vetur. Nafn á bókaorminn var kosið í lýðræðislegri kosningu og varð á endanum fyrir valinu nafnið Engilbert Sigurlína. Mannanafnanefnd hefur ekkert að segja þegar kemur að bókaormum svo við ákváðum að velja eitt kvenmanns- og eitt karlmannsnafn.

Í morgun héldum við fund með krökkunum þar sem við vöktum athygli á ástandinu í Sýrlandi og þeirri neyð sem margt flóttafólk býr við. Við ræddum hvernig við gætum lagt okkar að mörkum. Niðurstaðan varð sú að við ætlum að halda fjáröflun upp úr miðjum september þar sem við syndum og söfnum. Segjum betur frá því síðar.

Við höfum sett okkur það markmið að vera sýnileg í vetur. Ekki bara ætlum við að vera dugleg að nota endurskinsmerki heldur ætlum við líka að vera dugleg að vera sýnileg á facebook og hér á þessari síðu. Verið dugleg að fylgjast með!

Með bestu kveðju, Sigrún