Skólareglur

SKÓLAREGLUR Í GRÍMSEYJARSKÓLA

Í 30. Grein laga um Grunnskóla segir að hver skóli skuli setja sér skólareglur þar sem kveðið er á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar lífsvenjur. Grímseyjarskóli hefur nú brugðist við þessum kröfum með samningu skólareglna. Hægt er að nálgast ítarlega útgáfu og styttri útgáfu með því að velja viðeigandi flipa.

Ákveðið hefur verið að notast við hegðunareinkunn í eldri deild og er það ústkýrt í reglunum og einnig í síðasta hluta þeirra, Hvað gerist ef ég brýt skólareglur?

KURTEISI

  Í Grímeyjarskóla leggja allir sig fram um að standa saman og sýna hvert öðru umhyggju, kurteisi og tillitssemi innan skólans sem utan. Allir eiga rétt á því að líða vel í skólanum og hafa vinnufrið til að sinna námi sínu. Því er mikilvægt að við berum virðingu fyrir hvert öðru, truflum aðra ekki við nám sitt, leggjum ekki aðra í einelti og líðum ekki ofbeldi, hrekki eða slagsmál í neinni mynd. Mikilvægt er láta vita ef okkur sjálfum eða öðrum líður illa og hafa ávallt hugfast að við erum ekki öll eins og því ekki hægt að gera sömu kröfur til allra. Við dæmum ekki og erum tilbúin að aðstoða hvert annað.

 • Við hjálpumst að.
 • Við pössum að enginn sé útundan.
 • Við skiptumst á að nota leikföng og leiktæki þegar við á.
 • Við látum vita ef skólasystkini á í erfiðleikum með að fylgja skólareglum.

Nei 

 • Við truflum ekki aðra nemendur við vinnu sína.
 • Við metumst ekki eða gerum lítið úr öðrum.
 • Við einokum ekki leikföng og leiktæki.
 • Við skiljum ekki aðra útundan, stríðum, meiðum eða ofbjóðum öðrum á annan hátt (t.d. með ljótum munnsöfnuði eða framkomu).

Hvað gerist ef ég brýt kurteisisreglurnar? 

 • Verði nemandi uppvís að því að brjóta kurteisisreglur metur kennari alvarleika brotsins.
 • Valdi nemandi truflun í kennslustund áminnir kennari nemandann (biður hann vinsamlega um að láta af hegðuninni). Dugi það ekki til skráir kennari tilfellið hjá sér og lækkar hegðunareinkunn nemanda um 0,2.
 • Þegar nemandi sýnir kennara og/eða samnemendum sínum dónaskap er kennara heimilt að lækka hegðunareinkunn nemanda um 0,2 án sérstakra viðvarana eða áminningar.
 • Valdi nemandi verulegri truflun í kennslustund og áminning kennara dugir ekki til er heimilt að vísa nemandanum úr kennslustund. Komi til þess hefur skólastjóri samband við forráðamenn. Slíkt tilfelli kemur til lækkunar á hegðunareinkunn um sem nemur 1,0.
 • Gerist nemandi sekur um líkamsárás á samnemanda eða starfsmann skólans er haft samband við forráðamenn bæði þolanda og geranda. Slíkt tilfelli kemur til lækkunar á hegðunareinkunn um sem nemur 1,0.
 • Valdi nemendur tjóni á eigum skólans, starfsfólks, annarra nemenda skóla eða annarra aðila sem eiga verðmæti í og við skólann, eru þeir ábyrgir fyrir því tjóni.

UMGENGNI 

Nemendur temji sér góða umgengni og fari vel með þau verðmæti sem þeim er trúað fyrir. Mikilvægt er að virðing sé borin fyrir vinnustaðnum okkar, Grímseyjarskóla, og að allir temji sér góða umgengni um húsnæðið, skólalóðina og þau verkfæri sem notuð eru í náminu (t.d. bækur, heyrnartól, vasareikna o.s.frv.). Á skólatíma fari allir úr útiskóm og útifötum við inngang og raði í skóhillur og á snaga sem merktir eru nemendum. Allir standi saman í að gæta þess að komið sé inn með útileikföng (t.d. bolta) eftir frímínútur.

 • Við göngum hljóðlega um, sérstaklega þegar kennsla er í gangi.
 • Við göngum frá skóm og hengjum upp föt þegar komið er inn í skólann.
 • Við förum vel með þau verkfæri sem við fáum lánuð og skilum þeim að skóladegi loknum.

Nei

 • Við hlaupum ekki og öskrum í skólanum.
 • Við skiljum ekki eftir skó á miðju gólfi eða hendum útifötum á gólfið.
 • Við förum ekki illa með tæki og verkfæri skólans.

Hvað gerist ef ég brýt umgengnisreglurnar?

 • Gangi nemendur illa um skólann áminnir kennari þá. Dugi það ekki til skráir kennari tilfellin hjá sér og eftir þrjú skipti er kennara heimilt að lækka hegðunareikunn nemanda um 0,2.

STUNDVÍSI OG VINNUSEMI

Allir leggi sig fram um að mæta stundvíslega í kennslustundir og að viðhalda vinnufriði í kennslustundum. Skóladagurinn hefst klukkan 8:10 í Grímseyjarskóla. Komi nemandi seint í kennslustund biðst hann afsökunar á því og kemur sér hljóðlega að verki. Við leggjum áherslu á að allir nemendur sinni námi sínu af samviskusemi, jafnt í kennslustundum sem heima og mikilvægt er að nemendur venji sig á að skila heimanámi á réttum tíma. Fjarvistir vegna veikinda skal forráðamaður tilkynna í skólann samdægurs. Ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna veikindi á hverjum degi en vegna smæðar skólans okkar telst fullnægjandi ef systkini lætur kennara vita af áframhaldandi veikindum. Sama á við um leyfi, forráðamenn skuli sjá til þess að biðja skólastjóra um leyfi fyrir nemendur og gæta þess að láta vita ef lengja þarf leyfi af einhverjum ástæðum. Ennfremur bera foreldrar ábyrgð á því að gera viðeigandi ráðstafanir fari nemandi í leyfi, þ.e. gæti þess að nemandi hafi með sér námsgögn og –efni. Nemendum er óheimilt að fara út af skólalóðinni á skólatíma án leyfis skólastjóra eða, í þeim tilfellum sem hann er ekki til viðtals, kennara. Hafa ber hugfast að á skólatíma eru nemendur á ábyrgð skólans. Fjarvistir af öllu tagi eru skráðar í Mentor.

 • Við mætum stundvíslega. Ef við mætum seint biðjumst við afsökunar á því og komum okkur hljóðlega að verki.
 • Við erum vinnusöm í kennslustundum.
 • Við skilum heimanámi á réttum tíma.
 • Við fáum leyfi ef við þurfum að fara út af skólalóðinni á skólatíma.

Nei

 • Við mætum ekki seint og gætum þess að ef það kemur fyrir þá gætum við þess að valda ekki truflun í kennslustund.
 • Við sitjum ekki aðgerðarlaus í kennslustundum.
 • Við skilum ekki heimanáminu seint og illa.
 • Við förum ekki út af skólalóðinni á skólatíma án leyfis.

Hvað gerist ef ég brýt reglur er varða stundvísi og vinnusemi?. 

 • Komi nemandi seint í kennslustund kemur það til frádráttar hegðunareinkunn um sem nemur 0,2.
 • Skili nemandi ekki heimanámi á réttum tíma án gildrar ástæðu kemur það til frádráttar hegðunareinkunn um sem nemur 0,2.
 • Sé nemandi fjarverandi í kennslustund án fullnægjandi skýringa nemur frádrátturinn 0,5.
 • Athugið að allar fjarvistir eru skráðar í Mentor.

TÖLVUR OG TÆKI

Það er sameiginlegur hagur allra í Grímseyjarskóla að vel sé farið með tölvubúnað og önnur tæki í eigu skólans. Neysla matar og drykkja er bönnuð nálægt tölvum. Heyrnartól eru merkt sérstökum tölvum og þau á að hengja á tölvuskjá eftir notkun. Nemendur geta fengið að láni vasareikna, hringfara, reglustikur og ýmis önnur verkfæri í skólanum en þeir bera ábyrgð á þeim vasareiknum sem þeir fá lánaða.

 • Við göngum vel um tölvur og önnur tæki skólans.

Nei

 • Við förum ekki illa með tölvur og önnur tæki skólans.
 • Við neytum ekki matar eða drykkja við tölvur.

Hvað gerist ef ég brýt reglur er varða tölvur og tæki?

 • Verði nemandi uppvís að því að fara viljandi illa með eða ganga illa um tæki í eigu skólans er kennara heimilt að lækka hegðunareinkunn nemanda um 0,2-0,5 eftir alvarleika atviks.

NESTI

Forráðamenn nemenda sjái til þess að nemendur mæti með nesti í skólann. Tveir nestistímar eru í Grímseyjarskóla, einn kl. 9:45-10:00 og annar kl. 12:00-12:20. Mikilvægt er að nemendur neyti hollrar fæðu í skólanum. Mælst er til að nemendur neyti ekki djúss, sykraðra jógúrtvara (t.d. engjaþykknis), súkkulaðibrauðs og annars slíks alla jafna en á föstudögum er brugðið út af vananum og reglur rýmkaðar hvað það varðar. Gos og sælgæti er þó ekki leyft á skólatíma nema í algjörum undantekningartilfellum.

Í Grímseyjarskóla eru tveir umsjónarmenn í hverri viku. Þeir eiga að sjá til þess að gengið sé vel um nestisaðstöðu nemenda (eldhús og borðkrók) og ganga frá að hádegisverði loknum (þrífa borð, setja í uppþvottavél, stóla upp á fimmtudögum og sópa gólf þar sem borðað er). Hver nemandi sér um að ganga frá sínu nesti og skola það leirtau sem hann notar.

 • Hollt og gott nesti.
 • Við göngum frá eftir okkur að nestistíma loknum og skolum leirtau sem við notum.

Nei

 • Gos og nammi
 • Sykraðir drykkir (djús) og matur (t.d. engjaþykkni) – nema á föstudögum.
 • Við skiljum ekki eftir hálfborðað nesti og leirtau að nestistíma loknum.

Hvað gerist ef ég brýt reglur er varða nesti?  

 • Séu vandamál varðandi nesti nemenda hafa kennarar samband við forráðamenn og leitast við að leysa málin í bróðerni.
 • Sinni nemendur ekki umsjónaramannastarfi sínu af samviskusemi áminnir kennari nemanda. Dugi það ekki til er kennara heimilt að lækka hegðunareikunn nemanda um 0,2.

FARIÐ AÐ LÖGUM

Í Grímseyjarskóla er farið að lögum. Nemendum sem ekki hafa til þess tilskilin leyfi er til að mynda óheimilt að aka vélhjólum til og frá skóla, nemendum er óheimilt að nota tóbak á skólalóðinni og mikilvægt er að þeir noti ávallt hlífðarhjálm við hjólreiðar.

HVAÐ GERIST EF ÉG BRÝT SKÓLAREGLUR?

Hegðunareinkunn Hver nemandi í eldri deild Grímseyjarskóla byrjar hverja önn með 10 í hegðunareinkunn. Brot á skólareglum koma til frádráttar upphaflegri einkunn á eftirfarandi hátt:

Ósæmileg hegðun (Ó)         0,2 í frádrátt

Slæm umgengni (U)            0,2 í frádrátt
Óunnið heimanám (H)         0,2 í frádrátt
Seint (S)                               0,2 í frádrátt
Fjarvist (FV)                         0,5 í frádrátt
Vísað úr tíma (R)                   1,0 í frádrátt

Athugið að með fjarvist er átt við þegar nemandi er fjarverandi án skýringa. Nemandi fær upplýsingar um hegðunareinkunn sína að minnsta kosti tvisvar í mánuði. Kennari skráir hjá sér þau tilfelli sem koma til frádráttar svo nemandi getur ávallt fengið rökstuðning frá kennara á því hvers vegna

 • Kennari skráir ávallt hjá sér það sem verður til þess að hegðunareinkunn nemanda lækkar svo forráðamenn og nemendur sjálfir geti séð ástæður þess að gripið hefur verið til lækkunar hegðunareinkunnar og til að gæta þess að kennari nýti þetta úrræði ekki að eigin geðþótta.
 • Fari hegðunareinkunn niður fyrir 7,5 ræðir skólastjóri við nemanda og lætur forráðamenn hans vita.
 • Fari hegðunareinkunn niður fyrir 6,0 eru foreldrar boðaðir á fund með skólastjóra og kennara og mál nemandans rædd.
 • Fari hegðunareinkunn niður fyrir 3,0 er leitað til skóladeildar Akureyrarbæjar sem síðan veitir ráðleggur varðandi viðeigandi úrvinnslu máls.
 • Einu sinni á önn getur nemandi sótt um að hegðunareinkunn hans verði hækkuð. Hann gerir þá samning við starfsfólk skólans um að hann hyggist bæta hag sinn og á nemandi kost á að hækka um 0,5 fyrir hverja viku sem vel gengur.

ÉG KEM FRAM VIÐ AÐRA EINS OG ÉG VIL AÐ KOMIÐ SÉ FRAM VIÐ MIG